Nýjast á Local Suðurnes

Hálka á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi – Suðurstrandarvegur ófær

Hálku­blett­ir eru á Reykja­nes­braut og Grinda­vík­ur­vegi og ófært er á Suður­strand­ar­vegi, en unnið er að hreins­un samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Greint hefur verið frá því í ferðaþjónustuhópum á samfélagsmiðlinum Facebook að ferðamenn hafi átt í vandræðum með að komast leiðar sinnar á Suðurstrandarvegi undanfarið vegna hálku.

Lítil vetrarþjónusta er á Suðurstrandarvegi, en vegurinn er að jafnaði hreinsaður 1-2 í viku. Að mati Grindavíkurbæjar ætti Suðurstrandarvegur að vera með vetrarþjónustu 5 daga vikunnar, miðað við umferð, sem hefur aukist mikið undanfarin ár.

“Vegna tíðra lokana Suðurlandsvegar á Hellisheiði og í Þrengslum er mjög brýnt að hafa möguleika á að beina umferð um Suðurstrandarveg. Lokanir á Suðurlandsvegi hafa mikil og neikvæð áhrif á íbúa og fyrirtæki á svæðinu og nauðsynlegt að hafa aðra leið færa á milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins/Suðurnesja.” Segir í bókun bæjarstjórnar Grindavíkur frá því á síðasta ári.