Nýjast á Local Suðurnes

Enn mikið ónæði af flugumferð yfir Reykjanesbæ

Enn er töluvert kvartað undan hávaða vegna flugumferðar yfir Reykjanesbæ, en vegna framkvæmda við endurnýjun flugbrauta á Keflavíkurflugvelli er flugumferð beint í miklum mæli yfir Reykjanesbæ.

Tæpir tveir mánuðir eru liðnir síðan fulltrúar Reykjanesbæjar áttu fund með yfirflugumferðarstjóra í Flugturninum á Keflavíkurflugvelli og framkvæmdastjóra Keflavíkurflugvallar varðandi ónæði af flugumferð yfir byggðir Reykjanesbæjar. Á þeim fundi var ákveðið að reyna að lágmarka ónæði vegna flugs meðal annars með því að notast við flugtaksferla sem miða að því að hreyflum sé beitt þannig að þeir valdi sem minnstum hávaða.

Í byrjun ágúst biðlaði bæjarráð Reykjanesbæjar til flugvallaryfirvalda í bókun á fundi sínum, að hafa lífsgæði íbúa í huga þegar ákvarðanir um flugstefnu væru teknar.

Þetta virðist ekki þó hafa gengið eftir þar sem enn er mikil umræða um flugumferð yfir byggð í hópnum “Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri“á samféagsmiðlinum Facebook. Þar taka fjölmargir til máls og eru umræðurnar líflegar, meðal annars tekur flugmaður þátt í umræðunni og segir að svo virðist sem ekki séu eins strangar reglur í Keflavík og annarsstaðar í heiminum.

“Við flugmenn fljúgum inn á flugvelli út um allan heim og þurfum alls staðar að fylgja ströngum reglum til að minnka hávaða, NEMA í Keflavík. Það er auðvitað vægast sagt óeðlilegt og gott að heyra að Isavia stefni á breytingar, vonandi sem allra fyrst:)”

Þónokkrir koma reksraraðila flugvallarins til varnar og benda á að ekki sé hægt að loka heilum flugvelli yfir nótt.

“Sumt af því sem hefur komið fram hér í umræðunni er réttmætt en annað tel ég ekki eiga við rök að styðjast. Það er t.d. hægara sagt en gert að loka flugvellinum yfir nóttina slíkt er ekki gert með einu pennastriki á skrifstofu innan Isavia. Það er þó hægt að ná töluverðum árangri í því að takmarka hljóðmengun frá honum þegar allar flugbrautir eru í boði.” Segir í umræðunum.

Þá sendi rekstraraðili flugvallarins Isavia, frá sér tilkynningu í byrjun ágúst, þess efnis að upp yrðu settir rauntímamælar, sem mæla hljóðmengun frá flugumferð, til þess að íbúar á Suðurnesjum gætu betur fylgst með hljóðmenguninni frá flugvellinum á heimasíðu fyrirtækisins. Það hefur þó ekki enn verið gert og hafði Isavia ekki svarað fyrirspurnum Sudurnes.net varðandi tímasetningar á því hvernær þessi þjónusta verði aðgengileg á vefnum fyrir birtingu fréttarinnar.