Nýjast á Local Suðurnes

Grindavíkurbær undirbýr starfslok bæjarstjóra – Lögfræðikostnaður safnast upp

Umræður um áhrif kjarasamninga á rekstur Grindavíkurbæjar fóru fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Páll Jóhann Pálsson bæjarfulltrúi Framsóknar steig í pontu undir þessum lið, og ræddi undirbúning sveitarfélagsins á starfslokasamningi við starfsmann sveitarfélagsins.

Páll Jóhann gaf í skyn í umræðunum að lögfræðikostnaður hafi safnast upp vegna málsins og beindi þeirri spurningu til forseta bæjarstjórnar hvort ekki þyrfti viðauka við fjárhagsáætlun vegna þessa.

Sterkur orðrómur hefur verið í Grindavík undanfarnar vikur að um að unnið sé að starfslokasamningi við Róbert Ragnarsson bæjarstjóra Grindavíkur, sem nýlega flutti úr sveitarfélaginu vegna fjölskylduaðstæðna.

Hjálmar Hallgrímsson, forseti bæjarstjórnar, sagði enga peninga farið í slík mál. Öruggar heimildir Suðurnes.net herma þó að undirbúningur vegna uppsagnar bæjarstjóra hafi staðið yfir síðan skömmu eftir að hann tilkynnti um flutning úr sveitarfélaginu og að drög að starfslokasamningi hafi þegar verið kynnt bæjarstjóranum.

„Það hafa engir peningar farið úr bæjarsjóði í einhver verkefni að segja upp einhverjum bæjarstarfsmönnum upp,” sagði Hjálmar á fundinum í gær. Og hann bætti við að “…það er fjármagn inni í bæjarráði sem verður notað og ef að til þess kemur til að nota það þá verður það útskýrt og upplýst og öllum gefið það upp…”

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri jataði hvorki né neitaði að þetta væri raunin í svari við fyrirspurn Suðurnes.net, en benti á þau Kristínu Maríu Birgisdóttur, forseta bæjarstjórnar og Hjálmar Hallgrímsson, formann bæjarráðs. Þau Kristín og Hjálmar svöruðu ekki fyrirspurnum vegna málsins.

Hægt er að horfa á bæjarstjórnarfundinn í myndbandinu hér fyrir neðan. Páll Jóhann byrjar að tala um þetta mál á 46. mínútu fundarins.