Nýjast á Local Suðurnes

Óska eftir aðgerðum gegn hraðakstri eftir að ekið var á barn

Innri - Njarðvík

Íbúar í Innri-Njarðvík óska eftir öflugra eftirliti með hraðakstri í hverfinu og aðgerðum frá sveitarfélaginu vegna hraðaksturs sem virðist eiga sér stað í hverfinu. Málið er rætt í lokuðum hópi íbúa hverfisins á Facebook, hvar margir kvarta undan hraðakstri í kjölfar þess að ekið var á ungan dreng á reiðhjóli á þriðjudag.

Drengurinn beinbrotnaði illa og er enn á sjúkrahúsi, en á batavegi.

Í umræðum eru fjölmargar götur nefndar hvar íbúar vilja úrbætur, hraðahindranir eða þrengingar. Á Njarðvíkurbraut, þar sem ekið var á drenginn, eru þrjár hraðahindranir og 30 kílómetra hámarkshraði en íbúar greina frá því að í þeirri götu sé mikið um hraðakstur. Gatan er í nágrenni við grunnskóla og tvo leikskóla og því mikil umferð gangandi og hjólandi barna við götuna.