Nýjast á Local Suðurnes

Ársfundur MSS: Úrræði MSS geta breytt lífi fólks

Ársfundur MSS var haldinn 27. október sl. stjórnarformaður MSS, Kristín María Birgisdóttir, flutti ávarp og forstöðumaður MSS, Guðjónína Sæmundsdóttir, fór yfir ársskýrslu og ársreikning. Fram kom að starf MSS er mjög fjölbreytt, og margir ólíkir hópar sem stofnunin þjónar.

Ragnheiður Eyjólfsdóttir verkefnastjóri fór yfir samstarf MSS við fyrirtækið Vísi hf. í Grindavík og hvernig MSS hefur þjónustað fyrirtækið með námskeiðahaldi, aðstoðað við umsóknir um styrki til námskeiðahalds og gerð fræðsluáætlunar. Samstarfið hefur gengið mjög vel og er enn í gangi.

Tveir fyrrverandi nemendur MSS komu og sögðu sögu sína, þeir Aðalsteinn Hugi Frostason og Sigurbjörn Jón Árnason. Báðir sögðu úrræðið hafa breytt lífi sínu og að hjá MSS hefðu þeir mætt opnu viðhorfi og innan stofnunarinnar væri þeim mætt á jafningjagrundvelli og að gott væri að geta speglað sig í öðrum nemendum.

Sigurbjörn missti snemma fótanna, eins og hann sagði „ég missti allt frá mér hvort sem það voru eignir eða fjölskyldan“. Hann glímdi við kvíða og þunglyndi og kom hann fyrst inn í námskeiðið Hugur og heilsa sem er samvinnuverkefni MSS, Fjölmenntar og Bjargarinnar. Síðan fór hann í þjónustu hjá Virk sem vísaði honum til Samvinnu starfsendurhæfingar. Hann ákvað að láta bara leiða sig áfram og vera opinn fyrir öllu prógramminu sem hann var settur í, meira að segja föndrinu og segir hann það hreinlega hafa bjargað lífi hans að hafa komist í Samvinnu. Eftir Samvinnu fór hann í Menntastoðir hjá MSS. Nú stundar hann nám á Háskólabrú Keilis og stundar jafnframt vinnu með náminu.

Aðalsteinn sagði frá því að hann hafði glímt við einelti alla sína skólagöngu, bæði í grunnskóla og í framhaldsskóla. Einnig hefur ofvirkni og athyglisbrestur háð honum. Hann kom til MSS í Grunnmenntaskólann og fór þaðan í Menntastoðir sem hann lauk síðastliðið vor. Í Grunnmenntaskólanum öðlaðist hann sjálfstraust og undirstöðu til að takast á við nám og að geta talað fyrir framan aðra. Aðalsteinn stundar núna nám á Háskólabrú Keilis.

Það er ómetanlegt fyrir starfsfólk og stjórn MSS að heyra slíkar umsagnir frá nemendum og er það mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut þegar endurgjöfin er svona afgerandi.