Nýjast á Local Suðurnes

Aðsent: Athugasemdir við frétt um fjárhagsaðstoð flóttafólks

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Rangt farið með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga

Flóttamenn sem fá hér leyfi til dvalar skv. lögum um útlendinga nr. 80/2016 eiga rétt til félagslegrar þjónustu sem tilgreind eru í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 í því sveitarfélagi sem þeir hafa skráð lögheimili. Í þeim lögum er meðal annars kveðið á um rétt einstaklinga, með lögheimili á Íslandi, til fjárhagsaðstoðar geti hann ekki séð sér og sínum farborða.

Flóttafólk er oft í þeirri stöðu fyrstu mánuði eftir leyfisveitingu að vera án atvinnu og þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins meðan það kemur undir sig fótunum. Sumir finna vinnu fljótt meðan það tekur aðra lengri tíma. Teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis vill koma á framfæri leiðréttingu vegna þess misskilnings sem kemur fram í frétt sem birtist á localsuðurnes þann 9.6.2023 þar sem fram kemur að einstaklingar fái greidda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu þótt það sé komið í vinnu.

Í maí 2013 voru gefnar út viðmiðunarreglur Flóttamannanefndar um hvernig og hvaða þjónustu flóttafólk ætti að fá vegna viðkvæmrar stöðu og þar er kveðið á um að flóttafólki skuli tryggð fjárhagsaðstoð frá lögheimilissveitarfélagi og að það fái að halda hluta hennar þrátt fyrir að vera komið í vinnu. Í kjölfarið eða í maí 2014 voru gefnar út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks af þáverandi velferðarráðuneyti, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, sem snúa að framkvæmd þjónustu sem og stuðningi við flóttafólk og ná þær jafnt til flóttafólks sem kemur á eigin vegum sem og einstaklinga sem hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Sú grein í viðmiðunarreglunum Flóttamannanefndar að flóttafólk skuli halda hluta af fjárhagsaðstoð eftir að það fer að vinna var felld út í leiðbeinandi reglum ráðuneytisins. Reykjanesbær fylgir leiðbeinandi reglum um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks og þeim reglum sem bæjarstjórn hefur sett um fjárhagsaðstoð. Í reglum Reykjanesbæjar kemur fram að allar skattskyldar tekjur einstaklinga skulu dregnar frá þegar grunnfjárhagsaðstoð er reiknuð út, það á bæði við um flóttamenn og alla aðra sem eiga rétt á fjárhagsaðstoð. Það er því með öllu rangt að einstaklingar haldi fjárhagsaðstoð þegar þeir fara að vinna. Tekjur þeirra eru dregnar frá fjárhagsaðstoð og eingöngu ef tekjur þeirra eru undir viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar, sem eru kr. 174.297 á mánuði, skapast réttur til greiðslu frjáhagsaðstoðar.

Í umræddri grein er einnig tilgreint að flóttamenn fái greidda fasta upphæð kr. 90.000 með börnum. Ekki er vitað hvaðan Local Suðurnes fær upplýsingar um þær upphæðir og vill teymisstjóri ráðgjafar- og virkinteymis einnig leiðrétta þá staðhæfingu sem þar er sett fram. Í reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð kemur fram að þeir sem eiga rétt á fjárhagsaðstoð sér til framfærslu skuli fá aðstoð við að greiða daggæslu barna í heimahúsi, leikskólagjöld, frístundargjald og skólamat.

Fjárhæðir þær sem Reykjanesbær greiðir í fjárhagsaðstoð hafa vissulega hækkað verulega undanfarið enda hefur flóttamannastraumur verið umtalsverður og margir þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð sér til framfærslu. Þess ber þó að geta að öll fjárhagsaðstoð til flóttafólks er endurgreidd af ríkinu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga fyrstu tvö árin.

Bjarney Rós Guðmundsdóttir

Teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis velferðarsviðs Reykjanesbæjar

Athugasemd ritstjóra: Við vinnslu fréttarinnar um fjárhagsaðstoð og réttindi flóttafólks voru notaðar upplýsingar af vef Stjórnarráðsins um viðmiðunarreglur við móttöku flóttafólks. Þær upplýsingar eru enn aðgengilegar þar (sjá tengil fyrir neðan) Varðandi upphæðir um greiðslur með börnum þá virðist sem það sé rangt með farið og er beðist velvirðingar á því. Þær tölur hafa verið fjarlægðar úr fréttinni.

Viðmiðunarreglur um móttöku flóttafólks.