Nýjast á Local Suðurnes

Snæfell stöðvaði sigurgöngu Keflavíkurstúlkna – Njarðvík lagði Hauka

Fyrri og síðari hálfleikur í leik Snæfells gegn Keflavík í Dominos-deild kvenna í kvöld voru eins og svart og hvítt, Snæfellingar áttu fyrri hálfleikinn, á meðan Keflavíkurstúlkur höfðu tökin í þeim síðari. Lokamínúturnar í leiknum voru svo æsispennandi, en honum lauk með sigri Snæfells, 72-68.

Eins og fyrr sagði leiddu Snæfellsdömur leikinn í fyrri hálfleik og höfðu 15 stiga forskot í leikhléi. Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflvíkinga hefur væntanlega messað duglega yfir sínum stúlkum í leikhléi því Keflvíkingar tóku völdin og söxuðu smátt og smátt á forskotið. Stúlkurnar náðu svo að jafna leikinn undir lok þriðja leikhluta, 49-49.

Lokaleikhlutinn var svo jafn og spennandi, en Snæfell setti tóninn með öflugri þriggja stiga körfu og munurinn á liðunum var þetta 2-4 stig þar til um 15 sekúndur voru eftir að Keflavík náði að minnka muninn í eitt stig og spennan í hamarki. Snæfell náði þó að halda út og lauk leiknum með sigri þeirra, 72-69

Erna Hákonardóttir sem var stigahæst Keflvíkinga með 16 stig.

Njarðvíkurstúlkur lögðu Hauka að velli í leik þar sem Carmen Tyson-Thomas fór enn á ný á kostum, hún skoraði 49 stig í leiknum sem lauk 98-71. Þá tók Tyson-Thomas 18 fráköst í leiknum.

Grindavíkurstúlkur töpuðu gegn Stjörnunni, 67-59, eftir að hafa leitt með sex stigum í leikhléi. Ashley Grimes var atkvæðamest í liði Grindavíkur með 23 stig og 12 fráköst.

Keflavík deilir efsta sæti deildarinnar með Snæfelli og Njarðvíkingar eru í fjórða sæti á meðan Grindavík er í því sjöunda.