Enn gul viðvörun frá Veðurstofu – Fólk sýni varkárni og fylgist með færð á vegum
Búast má við takmörkuðu eða lélegu skyggni í éljum og versnandi akstursskilyrðum í fyrramálið. Auk þessa má búast við afmörkuðum samgöngutruflunum. Þetta kemur fram í spá Veðurstofunnar fyrir morgundaginn, en stofnunin hefur sent frá sér gula viðvörun vegna þessa. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með færð á vegum.
Vegna þessarar spár má búast við röskun á flugi til og frá Keflavíkurflugvelli og hefur Icelandair þegar brugðist við með því að flýta brottförum sem fara áttu í fyrramálið. Nánari upplýsingar um þær breytingar má finna á vef félagsins, en í tilkynningu hvetur flugfélagið viðskiptavini sína til þess að uppfæra netföng og símanúmer þannig að Icelandair geti komið skilaboðum til þeirra hratt og örugglega.