Nýjast á Local Suðurnes

Thelma Dís og Guðmundur Leó íþróttafólk ársins

Sunnudaginn 12. janúar síðastliðinn fór fram hátíðleg athöfn í Hljómahöll þar sem íþróttafólk Reykjanesbæjar 2024 var heiðrað. Körfuboltakonan Thelma Dís Ágústsdóttir og sundmaðurinn Guðmundur Leo Rafnsson voru valin íþróttafólk ársins og hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir frábæran árangur á árinu.

Verðlaun voru afhent til þeirra sem sýndu framúrskarandi árangur á árinu 2024, en á meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu var Elsa Pálsdóttir, sem varð tvöfaldur heimsmeistari í kraftlyftingum. Hún setti einnig heimsmet í réttstöðulyftu í sínum flokki og sýndi framúrskarandi árangur á heimsvísu. Auk þess fengu þeir sem unnu Íslandsmeistaratitil á árinu viðurkenningu fyrir árangur sinn, og Sjálfboðaliðar voru heiðraðir fyrir ómetanlegt framlag sitt til íþróttahreyfingarinnar.

Thelma Dís Ágústsdóttir er íþróttakona Reykjanesbæjar 2024 og hefur verið í fremstu röð íslensks körfubolta undanfarin ár og skarað fram úr bæði innanlands og erlendis. Á árinu varð hún deildar-, bikar- og Íslandsmeistari með Keflavík, var valin í úrvalslið deildarinnar og valin Körfuknattleikskona ársins 2024. Hún var einnig lykilleikmaður í landsliðinu. Með elju og ástríðu hefur hún hjálpað til við að lyfta íslenskum körfubolta á nýjar hæðir.

Guðmundur Leo Rafnsson er íþróttakarl Reykjanesbæjar 2024 og hefur einnig skarað fram úr á sínu sviði. Hann er einn fremsti sundmaður Íslands og hefur á árinu unnið til fjölda verðlauna bæði á alþjóðlegum mótum og innanlands og setti meðal annars þrjú ný Íslandsmet. Með mikilli einbeitingu og metnaði hefur Guðmundur orðið fyrirmynd fyrir aðra íþróttaiðkendur og sett mark sitt á íþróttalíf landsins.

Mynd: Reykjanesbær.is