Nýjast á Local Suðurnes

Ungur hönnuður úr Grindavík vekur athygli fyrir flotta hönnun á veskjum

Inga Fanney er 24 ára stúlka úr Grindavík, sem hefur brennandi áhuga á öllu sem við kemur hönnun, framleiðslu og markaðssetningu, bæði á veraldavefnum og í raunheimum.

ingafanney ifreykjavik

 

Inga Fanney býr um þessar mundir á Akureyri ásamt kærastanum sínum sem er í vélstjóranámi við Verkmenntaskólann á Akureyri.  Inga Fanney hefur vakið töluverða athygli að undanförnu fyrir smekklega hönnun á veskjum sem nýlega komu á markað undir nafni IF Reykjavík.

Upphafið að ævintýri Ingu Fanneyjar má rekja til þess að henni fannst vanta veski á markaðinn sem væri rúmgott en þó ekki of fyrirferðamikið, nógu stórt til að rúma það helsta sem nútímakonan þarf að hafa meðferðis öllum stundum, síma, klink, pening, kort og jafnvel lykla eða snyrtivörur.

if reykjavik1

Veskin frá IF Reykjavík eru rúmgóð og hönnunin er vönduð og flott

“Ég hafði leitað lengi að hinu fullkomna veski sem ég kæmi því nauðsynlegasta í en fann það aldrei, en þar sem ég hafði mikinn áhuga á öllu sem tengist bransanum, ákvað ég að fara sjálf í málið. Og IF Reykjavík varð útkoman.” Segir Inga Fanney.

Það sem gerir veskin frá IF Reykjavík sérstök er hvað þau eru rúmgóð miðað við stærð. Það að geta komið síma, pening, kortum og jafnvel lyklum og/eða snyrtivörum telst sérstakt. Hvert smáatriði er hugsað út í gegn og því er mjög mikil hugsun á bakvið eitt veski.

Veskin eru framleidd úr hágæða hráefni og segist Inga Fanney vinna töluvert með leður og rúskinn. Hver lína kemur í takmörkuðu upplagi og verður ekki framleidd aftur.

Aðeins er um ár síðan Inga Fanney setti vöruna á markað og hafa undirtekir farið fram úr björtustu vonum og er svo komið að hluti vörulínunnar er uppseldur á mörgum stöðum.

“Ég er bara nýbyrjuð og byrjaði með tvær týpur, leður og svo leður og rúskinn. Leður og rúskinnveskin eru uppseld á mörgum stöðum og koma ekki aftur. Svo kemur ný lína frá mér á næstu mánuðum ásamt karlmannsveskjum.” Segir Inga Fanney.

Hér má sjá sýnishorn úr nýju línunni sem kemur á markað fljótlega - Nýjir litir og ný hönnun

Hér má sjá sýnishorn úr nýju línunni sem kemur á markað fljótlega – Nýjir litir og ný hönnun

Hvað er svo framundan hjá hönnuðinum unga?

“Á næstunni kemur ný lína, nýr litur fyrir kvenmenn og einnig karlmannsveski. Mikil hugsun er á bakvið hvert einasta smáatriði í nýju línunni eins og þeirri fyrstu. Hvert veski kemur í fallegum umbúðum og inni í veskinu er lítill miði með upplýsingum um hönnunina.”

Veskin eru til sölu í Kastaníu í Kringlunni, Rammagerðinni á Akureyri ásamt Kistu í Hofi á Akureyri, Palómu í Grindavík, netverslun Krabbameinsfélagsins www.krabb.is og einnig á Facebook síðu IF Reykjavik.