Nýjast á Local Suðurnes

Fundaði með mennta- og menningarmálaráðherra vegna sundhallar

Ragnheiður Elín Árnadóttir fundaði með mennta- og menningarmálaráðherra vegna fyrirhugaðs niðurrifs gömlu sundhallarinnar í Reykjanesbæ. Á fundinum gerði Ragnheiður Elín ráðherra grein fyrir stöðu málsins, en Hollvinasamtökin fóru formlega fram á það í dag að beiðni um niðurrif Sundhallarinnar og beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna Framnesvegar 9-11 verði hafnað.

Eigendur hússins hafa samkvæmt bréfi sem Hollvinasamtökin sendu bæjarráði í dag sótt formlega leyfi til þess að rífa húsnæðið og verður sú beiðni tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar á miðvikudag.

Þá kemur fram í bréfi Hollvinasamtakanna að fulltrúi eiganda hússins hefur lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til þess að selja húsið með ákveðnum skilyrðum. Nauðsynlegt er að bæjaryfirvöld taki afstöðu til þeirra skilyrða og beiti sér fyrir lausn á málinu, segir í bréfinu, sem finna má í heild sinni á fésbókarsíðu samtakanna.