Keflvíkingar töpuðu gegn ÍA
Keflvíkingar töpuðu enn einum leiknum í Pepsí-deildinni í dag þegar Akurnesingar komu í heimsókn í rok og rigningu á Nettó-völlinn, 0-4 urðu lokatölurnar að þessu sinni eftir að Skagamenn höfðu náð þriggja marka forystu fyrir leikhlé. Með sigrinum tryggðu Akurnesingar sæti sitt í deildinni en Keflvíkingar eru sem kunnugt er fallnir.
„Maður var að vonast til þess að menn gætu reynt að njóta þess að vera pressulausir, leggja sig fram og spila sem lið en sú varð ekki raunin,“ sagði Haukur Ingi Guðnason, þjálfari Keflavíkur við mbl.is eftir leikinn.
„Við ætlum að skoða það,” sagði Haukur Ingi aðspurður um hvort hann og Jóhann Birnir myndu halda áfram með liðið í 1. deildinni “það væri gaman að prófa að geta stýrt liði frá upphafi og haft meiri tíma til að setja sín fingraför á það. En við verðum að skoða það, hvort sé áhugi hjá Keflavík og geta hjá okkur. En það kemur í ljós,“ sagði Haukur Ingi Guðnason í samtali við mbl.is.