Nýjast á Local Suðurnes

Fylgjast enn vel með í Helguvík – Engar athugasemdir borist við vöktunaráætlun

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Umhverfisstofnun fylgist enn vel með starfrækslu verksmiðju United Silicon í Helguvík, eftir að vefmiðillinn Stundin birti myndbönd sem sýndu losun á kísilryki út um túðu á reikhreinsivirki verksmiðjunnar og aðstöðu í sjúkraherbergi starfsmanna, en þar virtist sem ýmsu væri ábótavant.

Fulltrúar Umhverfisstofnunnar flýttu fyrirhuguðaðri eftirlitsferð í verksmiðjuna í kjölfarið á birtingu myndbandanna, en í þeirri eftirlitsferð var meðal annars farið yfir ástæður þess að kísilryk var losað út um túðu á reikhreinsivirki auk þess sem fjallað var um tilkynningaskyldu til stofnunanrinnar, segir Sigrún Ágústsdóttir hjá Umhverfisstofnun í skriflegu svari við fyrirspurn Suðurnes.net um stöðu mála í verksmiðjunni.

“Farið var yfir ástæður losunar á kísilryki út um túðu á reikhreinsivirki en í starfsleyfi segir að engar ryksuppsprettur megi vera án virkra mengunarvarna sem uppfylla kröfur um bestu fáanlegu tækni. Einnig var fjallað um tilkynningaskyldu til stofnunanrinnar og stöðu úrbótaáætlunar vegna frávika sem skráð hafa verið. Drög að eftirlitsskýrslu vegna þessa eftirlits hafa verið send fyrirtækinu.” Segir Sigrún.

Þá segir Sigrún að yfirferð standi enn yfir á úrbótaáætlunum fyrirtækisins og að úrvinnslu kvartana sé ekki lokið.

“Tilkynningar frá fyrirtækinu eru farnar að skila sér betur en ekki er lokið yfirferð á úrbótaáætlunum fyrirtækisins né úrvinnslu kvartana. Eftirlit hefur verið umfangsmeira en gert var ráð fyrir.” Segir Sigrún.

Aðspurð um hvort einhverjar athugasemdir hafi borist við umhverfisvöktunaráætlun fyrirtækisins, segir Sigrún svo ekki vera, en frestur til að skila inn athugasemdum við áætlunina rennur út þann 17. janúar næstkomandi.