Nýjast á Local Suðurnes

Kerfi vegna veggjalda kostaði 40 milljarða – 30.000 hafa tekið þátt í veggjaldakönnun

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur áhyggjur af þeim áformum að fara yfir í nýja skatta á fjölskyldurnar í landinu og hefur fyrir sér í þeim efnum þær forsendur að nú þegar er verið innheimta af bílaeigendum 80 milljarða í formi skatta og gjalda.

Í tilkynningu frá FÍB kemur fram að félagið hafi tekið sérstaklega út þann hluta þessara skatta sem eru hrein notendagjöld, eldsneytisskattar, bifreiðagjaldið o.fl. sem bera ekki virðisaukaskatt en skila tæplega 40 milljörðum króna í ríkissjóð.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu félagsins að núverandi tillögur séu ómótaðar og nánast hent út í umræðuna án lýðræðislegrar aðkomu almennings. Í tillögunum er jafnræðissjónarmiðum og umhverfismarkmiðum kastað fyrir róða. Vegtollar eru nýr skattur á bíleigendur ofan á þá ofurskatta sem þegar eru lagðir á eign og rekstur heimilisbílsins.

Auk þessa kemur fram að svipað kerfi og áformað er að setja upp hér á landi hafi verið sett upp í miðborg Stokkhólms. Markmiðið með þessum skatti er að draga úr umferð í miðborginni. Innheimtukerfið til þessarar skattheimtu með tækjabúnaði við helstu akstursleiðir inn og út úr kjarna Stokkhólms kostaði um 40 milljarða króna.

Könnun sem Þórólfur Júlían Dagsson setti upp og deildi á Facebook sýnir vel að almenningur er ekki fylgjandi veggjöldum, en þegar þetta er ritað hafa tæplega 30.000 manns tekið þátt í könuninni sem finna má hér fyrir neðan.