Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar: “Getur varla talist eðlilegt að útiloka Keflavíkurflugvöll”

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lagði fram bókun í upphafi bæjarstjórnarfundar í gær þar sem skorað er á hlutaðeigandi að skoðaðir verði kostir þess að innanlandsflugið fari til Keflavíkurflugvallar. Ályktunin er svohljóðandi:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir furðu sinni á því að ekki hafi verið kannaðir kostir þess að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Nú er hafin vinna við að skoða kosti þess að flytja innanlandsflugið í Hvassahraun sem er aðeins í 20 mín fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli. Það er ljóst að verði af slíkri framkvæmd mun hún kosta tugi milljarða. Það getur varla talist réttlætanlegt þegar hægt væri að koma upp aðstöðu fyrir innanlandsflug fyrir brot af þessum kostnaði.
Svokölluð Rögnunefnd sem fékk það verkefni að skoða aðra kosti fyrir innanlandsflug en í Reykjavík, útilokaði einhverra hluta vegna Keflavíkurflugvöll sem valkost. Ástæður þess liggja ekki fyrir og slíkt getur varla talist eðlilegt þegar um svo mikla fjármuni er að ræða.

Kostir þess að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur eru hins vegar augljósir út frá fjárhagslegum sjónarmiðum. Á það hefur verið bent að dreifa þurfi ferðamönnum um landið vegna átroðnings á ákveðnum stöðum. Með tengingu innanlandsflugs og millilandaflugs verður slíkt mögulegt í auknum mæli.
Á Suðurnesjum er til staðar sjúkrahús sem gæti sinnt ákveðnum hluta sjúkraflugs með litlum breytingum og því ætti öryggisatriðum að vera fullnægt.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar því á hlutaðeigandi að skoðaðir verði kostir þess að innanlandsflugið fari til Keflavíkurflugvallar samhliða athugun á öðrum kostum.“

Undir ályktunina skrifa Guðbrandur Einarsson, Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Kristján Jóhannsson, Friðjón Einarsson, Eysteinn Eyjólfsson, Kristinn Þór Jakobsson, Davíð Páll Viðarsson, Ingigerður Sæmundsdóttir og Baldur Þ. Guðmundsson.