Nýjast á Local Suðurnes

Rútufyrirtæki segir upp samningi um akstur á milli Reykjavíkur og Reykjaness – Gæti verið skaðabótaskylt

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Rútufyrirtækið SBK hefur sagt upp þjónustusamningi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum um akstur milli höfuðborgarinnar og Suðurnesja. Alvarleg mistök munu hafa verið gerð við útreikninga þegar tilboð í aksturinn var gert og hafi fyrirtækið þurft að greiða tugi milljóna á ári með akstrinum.

Þetta kemur fram á vef RÚV, þar er einnig greint frá því að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum muni leggja allt kapp á að halda leiðinni opinni þrátt fyrir að SBK hafi rift samningnum. Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum segir að sveitarfélögin hafi leitað til lögmannsstofunnar LOGOS til að kanna réttarstöðu gagnvart SBK. Hún telur að fyrirtækið gæti þurft að greiða skaðabætur vegna riftunarinnar.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, sem eiga fyrirtækið SBK, segir að alvarleg mistök hafi verið gerð við útreikninga þegar tilboð í aksturinn var gert. Fyrir vikið hafi fyrirtækið þurft að greiða tugi milljóna á ári með akstrinum. Hann segir að ef fyrirtækið hefði ekki gengið út úr samningnum hefði reksturinn stefnt í þrot.