Nýjast á Local Suðurnes

Reykjavík FBO þjónustar Play á Keflavíkurflugvelli – Rúmlega tveggja milljarða sparnaður

Mynd: Skjáskot Facebook Reykjavik FBO

Samkvæmt viðskiptaáætlun lággjaldaflugfélagsins Play munu sparast samanlagt um 2,2 milljarðar króna á samningum gerðir hafa verið um flugafgreiðslu á árunum 2020 til 2022 samanborið við fyrri samninga WOW air. Play hefur samið við Íslenska flugafgreiðslufélagið, en WOW air var þjónustað af Suðurnesjafyrirtækinu Airport Associates.

Íslenska flugafgreiðslufélagið hóf nýlega starfsemi á Reykjavíkurflugvelli undir merkinu Reykjavík FBO. Það var stofnað árið 2017 en á síðasta ári námu tekjur félagsins um 10 milljónum króna. Félagið er einnig með heitið Iceland Aero Agents skráð hjá fyrirtækjaskrá og er með heimasíðu í smíðum með léni sem samsvarar erlenda heitinu, segir í frétt Vísis, en miðillinn hefur undanfarið flutt fréttir sem unnar eru upp úr fjárfestakynningu hins nýja flugfélags.

Nokkrar vikur eru síðan flugafgreiðslufyrirtækið hóf að flytja tækjabúnað sinn til Reykjanesbæjar, en búnaðurinn er geymdur á geymslusvæði í Njarðvík hvar hann bíður nýrra verkefna.

Gert er ráð fyrir að hefja flug á tveimur Airbus A320 flugvélum til sex áfangastaða í Evrópu í vetur. Fjórum flugvélum af sömu tegund verður síðan bætt við í vor og verður þá hafið flug til fjögurra stórborga í Norður-Ameríku.