Nýjast á Local Suðurnes

Anna nálgast sjö stafa tölu í Reykjavíkurmaraþoni

Suðurnesjakonan Anna Gunnlaugsdóttir er ein af þeim sem safnað hefur hvað mestu í gegnum vefsíðuna hlaupastyrkur.is, en þar er safnað áheitum í tengslum við Reykjavíkurmaraþon. Anna stefnir á að hlaupa 21,1 kílómeter í maraþoninu.

Anna hleypur til styrktar Styrktarsjóðs Gjörgæslu, en það gerir hún eftir að bróðir hennar lenti í alvarlegu slysi og dvaldi þar í nokkurn tíma. Anna hefur, þegar þetta er ritað safnað rétt tæplega milljón krónum en markmiðið í upphafi var 300.000 krónur.

“Þetta árið ætla ég að safna áheitum fyrir gjörgæsludeild Landsspítala. Í mars síðastliðnum lenti bróðir minn í alvarlegu slysi og var hann á gjörgæslu í 8 vikur, þar af voru 7 vikur sem honum var haldið sofandi.  Á meðan hann safnar kröftum get ég notað mína og gefið eitthvað til baka og þakkað fyrir alla umhyggjuna og velvildina sem hann og fjölskylda hans fengu.” Segir á söfnunarsíðu Önnu.