Nýjast á Local Suðurnes

Einkavæðing og skerðing á þjónustu verði skipuð fjárhagsstjórn yfir Reykjanesbæ

Reykjanesbær hefur sett lánadrottnum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF) afarkosti í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir, afarkostirnir felast í því að ef ekki verður gengið að kröfum sveitarfélagsins um niðurfellingu skulda mun Reykjanesbær óska eftir því við innanríkisráðuneytið að það skipi fjárhagsstjórn yfir sveitarfélaginu sem tæki yfir stjórn fjármála Reykjanesbæjar.

Ef fjárhagsstjórn verður sett yfir Reykjanesbæ felst í því meðal annars að stjórnin muni taka að sér endurskipulagningu fjárhags sveitarfélagsins og leiða viðræður við lánardrottna. Fjárhagsstjórnin mun því að nokkru leiti taka yfirráðin yfir sveitarfélaginu. Aðeins tvisvar sinnum áður hafa fjárráð verið tekin af sveitarfélagi en það var þegar ráðherra setti fjárhagsstjórn yfir Hofsós árið 1988 og yfir Álftanses árið 2010.

Ríkisendurskoðun lét vinna athugun á fjárhagsstöðu Áftaness árið 2010, í skýrslunni er komið inn á þær leiðir sem fjárhagsstjórn hefur til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, gera má ráð fyrir að sömu möguleikar gildi fyrir Reykjanesbæ.

Bæjarstjórn fer áfram með málefni sveitarfélagsins

Verði fjárhagsstjórn skipuð yfir sveitarfélaginu mun hún samanstanda af þremur mönnum, þar af einum samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk fjárhaldsstjórnar er að taka við stjórn fjármála sveitarfélags og má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Ályktanir sveitarstjórnar og ákvarðanir lægra settra stjórnvalda hennar, sem hafa útgjöld í för með sér, eru ógildar nema til komi samþykki fjárhaldsstjórnar. Að öðru leyti fer sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins.

Einkavæðing og sameiningar við önnur sveitarfélög

Fjárhagsstjórn getur með samþykki ráðuneytis selt eigur sveitarfélagsins til lúkningar skuldum, þó ekki þær eigur sem nauðsynlegar eru til framkvæmda á lögskyldum verkefnum. Með sama móti getur fjárhaldsstjórn ákveðið að færa tiltekna starfsemi sem rekin hefur verið á vegum sveitarfélagsins í hendur einkaaðila. Dugi ekki framangreindar ráðstafanir til þess að koma fjárhag sveitarsjóðs og stofnana hans á réttan kjöl getur ráðuneytið einnig ákveðið að leita samninga við nágrannasveitarfélög um sameiningu við það sveitarfélag sem undir fjárhaldsstjórn er.

Skerðing á þjónustu

Takist ekki að semja um niðurfellingu skulda og fjáhagsstjórn verður skipuð yfir sveitarfélaginu er sá möguleiki fyrir hendi að skattar verði hækkaðir og þjónusta við íbúa skert af hálfu þeirrar fjárhagsstjórnar.