Nýjast á Local Suðurnes

Engin hækkun á skólavistun í Reykjanesbæ

Í Verðlagseftirliti ASÍ  1. febrúar 2015 til 1. janúar 2016, þar sem kannaðar voru breytingar á gjaldskrám leikskóla og fæðis hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins, kemur fram að kostnaður við skólavistun með hressingu og hádegismat er einna lægstur í Reykjanesbæ. Engin hækkun mældist á tímabilinu. Verð á vistun er 16.000,- krónur á mánuði og hádegismatur kostar 350,- krónur. Dýrast er að vera með barn í dagvistun í Garðabæ og þar hækkaði gjaldið mest. Hér má lesa nánar um verðlagningu sveitarfélaga.

Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands sýnir svart á hvítu þær áherslur sem lagt var upp með í nýlegum gjaldskrárbreytingum hjá Reykjanesbæ, að hækka ekki gjald grunnþjónustu barna umfram þróun vísitölu. Segir á vef Reykjanesbæjar.

Þegar skoðaður er kostnaður við átta tíma leikskóladvöl með fæði nemur hækkunin rétt um 1% á áðurnefndu tímabili, sem skýrist af hækkun matargjalds leikskólanna milli ára. Engin hækkun varð á tímagjaldi leikskóla í Reykjanesbæ og er fimmta lægsta verð samanburðarsveitarfélaganna hér. Átta klukkustundar dvöl með hádegismat, morgun- og síðdegishressingu kostar 33.570,- krónur en forgangshópar greiða 27.367,- krónur. Greitt er 50% gjald af dvöl fyrir annað barn og frítt er fyrir þriðja og fjórða barn. Hér má nálgast upplýsingar um gjaldskrár leikskólanna í eftirliti ASÍ.