Nýjast á Local Suðurnes

Óska eftir bókum eftir að safnið skemmdist vegna myglu og leka

Farga þurfti öllum bókum bókasafns Myllubakkaskóla vegna myglu og leka sem upp kom í skólanum og biðla stjórnendur því til fólks að gefa bækur til skólans hafi það tök á.

Þetta kemur fram í tilkynningu, en þar segir:

Þurfum við því að byrja upp á nýtt og eignast bækur fyrir nemendur okkar.  Það mun taka mörg ár að byggja upp gott bókasafn en einhversstaðar verðum við að byrja.

Hugmyndin er að byrja á að búa til þrjú minni “bókasöfn” fyrir hvert stig svo nemendur hafi aðgang að fjölbreyttum bókakosti.  Óskum við því eftir aðstoð ykkar. 

Ef þið eigið bækur á ykkar heimili sem allir eru búnir að lesa og gætu öðlast nýtt líf hjá okkur þá værum við þakklát að fá þær.  Allar vel með farnar bækur sem henta börnum og unglingum eru vel þegnar.

Þeir sem vilja leggja okkur lið geta komið með bókagjafirnar á milli kl. 8 og 16 í skrifstofugáminn á skólalóð Myllubakkaskóla, Sólvallagötu 6a.