sudurnes.net
Tekist á um mögulega bókasafnsflutninga - Local Sudurnes
Tekist var á um mögulegan flutning á Bókasafni Reykjanesbæjar frá Tjarnargötu yfir í Hljómahöll á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en meirihlutiinn hefur samþykkt að skoða þann möguleika, gera kostnaðaráætlun og skoða mögulega hönnun á húsnæðinu, verði af breytingum. Fulltrúar bæði meiri- og minnihluta lögðu fram bókanir um málið á fundinum, hvar þeir skýra sínar skoðanir á þessu hitamáli. Báðar bókaninar má sjá hér fyrir neðan: Bókun meirihluta: „Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 24. nóvember 2022 var samþykkt af kjörnum fulltrúum allra flokka að skoða það hvort færa eigi Bókasafn Reykjanesbæjar í núverandi húsnæði Rokksafns Íslands í Hljómahöll. Það væri liður í því að efla Hljómahöll enn frekar sem menningarhús Reykjanesbæjar og styrkja daglega starfsemi í Hljómahöll. Bæjarstjóra var falið að skoða málið með starfsfólki Reykjanesbæjar; gera kostnaðaráætlun, skoða mögulega hönnun vegna breytinga á húsnæðinu að innan og skoða heildrænt hvort það sé góð hugmynd að færa bókasafnið í núverandi rými Rokksafnsins. Ef af ákvörðuninni yrði, myndi sambærileg vinna einnig fara fram um safnmuni Rokksafnsins, en margar hugmyndir eru uppi um hvort hægt sé að færa allt safnið eða hluta þess í aðrar byggingar, eða jafnvel halda hluta safnsins enn í núverandi húsnæði, enda vilji til þess að virða og miðla áfram [...]