Nýjast á Local Suðurnes

Stefnt á að opna bókhald Reykjanesbæjar – Hægt verður að skoða útgjöld einstakra deilda

Reykjanesbær stefnir á setja upp veflausn sem gerir íbúum kleift að finna upplýsingar úr bókhaldi sveitarfélagsins. Kópavogsbær opnaði bókhald bæjarins með aðgengilegri veflausn á vefsíðu bæjarins á síðasta ári, en þar er að finna upplýsingar um færslur undanfarinna þriggja ára.

Á vef Kópavogsbæjar er hægt að skoða hvaða greiðslur sveitarfélagið innti af hendi og til hverra. Hægt er að skoða útgjöld stjórnsýslunnar, einstakra stofnana og deilda. Ekki er hægt að skoða einstaka reikninga en hægt er skoða samanlagða upphæð reikninga út frá málflokkum, deildum, stofnunum, fjárhagslyklum og lánadrottnum á aðgengilegan hátt. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sagði í umræðum á Facebook-síðunni Reykjanesbær – Betri bær að sveitarfélagið stefndi á að notast við sömu útfærslu og Kópavogsbær.

Lausnin sem notuð er í Kópavogi er unnin í samvinnu upplýsingatæknideildar Kópavogsbæjar og nemenda í tölvunarfræði hjá Háskólanum í Reykjavík. Lausnin var lokaverkefni nemenda sem áður höfðu verið í sumarvinnu hjá Kópavogsbæ en unnið hefur verið að opnun bókhaldsins frá árinu 2014.