Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjasigrar í Dominos-deildinni í kvöld – Framlengja þurfti í Grindavík

Frábærar lokamínútur í fyrri hálfleik lögðu grunninn að sigri Njarðvíkinga á liði Snæfells í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld. Snæfellingar héldu í við Njarðvíkinga í upphafi leiks en þegar þeir grænu hrukku í gang var ekki að spyrja að leikslokum. Njarðvíkingar leiddu með 19 stigum í hálfleik, 36-55.

Lokatölur leiksins urðu svo 83-104 Njarðvík í vil. Corbin Jackson sýndi hversu mikilvægur hann getur verið liði Njarðvíkur, en hann skoraði 28 stig í kvöld. Björn Kristinsson kom einnig sterkur inn og skoraði 26 stig.

Grindvíkingar tóku á móti Haukum í Mustad-höllinni í Grindavík, en þar var aðeins meiri spenna í gangi og framlengja þurfti leikinn. Grindvíkingum, var ekki spáð góðu gengi í Dominos-deildinni í ár, en þeir höfðu fjögurra stiga sigur á Haukum, 92-88, þegar yfir lauk og hafa þar með unnið báða sína leiki til þessa.

Ernest Lewis Clinch Jr. átti frábætan leik fyrir Grindvíkinga í kvöld, hann skoraði 29 stig og kom virkilega öflugur inn í framlenginguna. Ólafur Ólafsson og Ómar Örn Sævarsson skoruðu 18 stig hvor.