Nýjast á Local Suðurnes

Fengu ekki að fara í flug vegna ölvunar – Tóku afskiptum lögreglu illa

Nokkur erill var hjá lögreglunni á Suðurnesjum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um helgina af völdum ölvaðra flugfarþega. Í gærkvöld barst beiðni um aðstoð vegna fimm farþega sem fengu ekki að fara um borð í flug til Varsjár vegna ölvunar. Lögregla vísaði þeim niður í komusal, öllum utan einum sem var ofurölvi og neitaði að yfirgefa flugstöðina. Hann var því handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var látinn sofa úr sér.

Áður hafði karlmaður sem ætlaði um borð í flugvél á leið til  Vilnius verið stöðvaður vegna ölvunar.  Fylgdu lögreglumenn honum út úr flugstöðinni.

Loks var tilkynnt um par sem var með óspektir í brottfararsal.  Fólkinu var tilkynnt að það færi ekki með fyrirhuguðu flugi og tók það þeirri tilkynningu illa. Lögregla færði parið á lögreglustöð þar sem því var veitt tiltal vegna hegðunarinnar.