Nýjast á Local Suðurnes

Starfsfólk barnaverndarnefnda gefst upp vegna álags – Þekking og reynsla tapast

Tölur sem Barnaverndarstofa kynnti á fundi með fulltrúum sveitarfélaga fyrir stuttu, sýna að starfsmenn barnaverndarnefnda á Íslandi eru að meðaltali með yfir 20 – 30 fleiri mál á sinni könnu en starfsmenn barnaverndarnefnda á hinum norðurlöndunum. Í Noregi eru starfsmenn með 12-15 mál, í Danmörku og Svíþjóð eru þeir með um 25 mál. Á Íslandi, og þá sérstaklega á suðvesturhorni landsins, eru starfsmenn hinsvegar með um og yfir 50 mál í vinnslu á hverjum tíma.

maria gunnarsdottir

María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar

Í handbók Barnaverndarstofu, sem fyrst kom út árið 2006 og í endurskoðaðri útgáfu árið 2015, er fjallað um álag á starfsmenn barnaverndarnefnda og þar kemur fram að ásættanlegur málafjöldi á borði hvers starfsmanns sé 25 – 30 mál.

María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar segir starfsmannaveltu vera of mikla og þekkingu tapast vegna álags.

“Starfsmannaveltan er óeðlilega mikil og fólk brennur út og snýr sér að öðru eftir nokkur ár í starfi. Sem er slæmt því barnavernd krefst mikillar þekkingar og reynslu.” Er haft eftir Maríu í nýjasta tölublaði Fréttatímans.

Þá segir María að lítill tími gefist til að sinna sjáfri barnaverndarvinnunni, því mikill tími fari í skriffinsku.

„Það er mikil krafa um að barnaverndarmálin standist skriffinsku. Þetta er auka álagsþáttur hjá starfsmönnum sem gerir það að verkum að þeir hafa minni tíma í sjálfa barnaverndarvinnuna. Það þarf að skila greinargerðum, gera áætlanir og það er mikil tímapressa vegna málafjöldans. Þá er lítill tími til að kortleggja vandann.