Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær býður upp á sveigjanleika til leikskólakennaranáms

Reykjanesbær brást vel við tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands sem hvöttu sveitarfélög til að styðja við átak fjölgun leikskólakennara. Í því skyni býður bærinn upp á sveigjanleika til að starfsmenn í leikskólum bæjarins geti stundað leikskólakennaranámið með vinnu.

Fam kom í frétt Local Suðurnes á dögunum að menntuðum leikskólakennurum á Suðurnesjum hefur fækkað um 20 frá desember 2013 og voru 107 í desember 2014 og um 40 hafa aðra uppeldismenntun að baki. Athygli vekur að rúmlega 60% starfsfólks á leikskólum á Suðurnesjum er ófaglært. 15 leikskólar eru starfræktir á svæðinu og eru starfsmenn um 400.

Á dögunum kallaði fræðslusvið Reykjanesbæjar saman þá starfsmenn í leikskólum Reykjanesbæjar sem stundað hafa nám í leikskólakennarafræðum og einnig  þá sem voru að byrja sl. haust. Að sögn Ingibjargar Bryndísar Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa hafa fáir útskrifast héðan af svæðinu á undanförnum árum og því sé það einkar ánægjulegt hversu námshópurinn er stór.