Nýjast á Local Suðurnes

Bætt heilsa í vaktavinnu er nauðsynleg

Skaðsemi vaktavinnu á heilsu er þekkt og minnir um margt á þau áhrif sem viðvarandi streita veldur á líkama og sál. Erlendar rannsóknir sýna að þeir sem stunda vaktavinnu eru líklegri til þess að þjást af offitu, sykursýki, efnaskiptavillu, meltingarvandamálum og þunglyndi svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir sýna einnig að neikvæð heilsufarsleg áhrif af vaktavinnu geta verið viðvarandi jafnvel þó starfsmaður sér hættur í vaktavinnu og hafi snúið sér að dagvinnu. Tíðni slysa er um 25-30% hærri í vaktavinnu og eykst enn ef vaktir eru langar. Mikilvægt er að fræða vaktavinnufólk um óæskileg áhrif vaktavinnu og hvernig hægt sé að vinna gegn þeim áhrifum.

Námskeið sérstaklega ætlað vaktavinnufólki 

Jóhann Friðrik Friðriksson

Jóhann Friðrik Friðriksson

Nexis heilsuefling í samstarfi við MSS bíður uppá námskeið sem ber yfirskriftina “Bætt heilsa í vaktavinnu” og fer það fram í janúar nk. í Hljómahöll. Námskeiðið er sérstaklega ætlað vaktavinnufólki á Suðurnesjum og stjórnendum fyrirtækja þar sem unnið er á vöktum. Hægt er að velja á milli tveggja dagsetninga, 6. janúar og 13. janúar sem ætti að auka líkurnar á því að vaktavinnufólk sjái sér fært að mæta. Á námskeiðinu verður farið yfir heilsufarslegar afleiðingar vaktavinnu og hvernig megi fyrirbyggja eða draga úr þeim áhrifum. Innifalið í námskeiðinu er morgunhressing og hádegismatur auk þess sem boðið er uppá kaffi og meðlæti seinnipartinn. Námskeiðið endar svo á léttu uppistandi sem gefur tóninn fyrir nýtt ár. Starfsmenn geta sótt um niðurgreiðslu vegna námskeiðsins til síns stéttarfélags og við hvetjum alla vinnustaði til þess að nýta tækifærið og bjóða sínu starfsfólki á námskeiðið í janúar.

Vaktavinna hefur líkamleg, andleg og félagsleg áhrif 

Í niðurstöðum íslenskrar rannsóknar sem gerð var árið 2014 kom fram að andleg heilsa vaktavinnufólks er lakari en dagvinnufólks, en svo virðist sem það fólk upplifi frekar depurð, kvíða og áhyggjur. Rannsóknin sýndi einnig að svefnvandamál voru tíðari hjá vaktavinnufólki en vaktavinnusvefnröskun (Shift work sleep disorder) á sér stað þegar rof verður í eðlilegum gangi lífsklukkunar sem síðan orsakar svefnleysi og viðvarandi syfju. Vaktavinna hefur ekki bara neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Óæskileg áhrif vaktavinnu hafa einnig áhrif á félaglega þætti en vaktavinnufólk er frekar óánægðara í samböndum en dagvinnufólk. Rannsóknin sýndi að næring starfsmanna sem ganga vaktir er lakari sem er verulegt áhygjuefni því góð næring hefur jákvæð áhrif á framleiðni og líðan starfsfólks.

Mikil aukning þýðir meira álag

Á Suðurnesjum vinna margir starfsmenn vaktavinnu og hefur það hlutfall aukist í samræmi við aukinn ferðamannafjölda. Á kynningarfundi Isavia sem haldinn var nýverið kom fram að gert er ráð fyrir að um 8,75 milljónir manna muni fara um Keflavíkurflugvöll árið 2017. Sú gríðarlega aukning í umferð um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur nú þegar haft mikil áhrif á starfsfólk þeirra fyrirtækja sem þar starfa, en aukningin hefur einnig í för með sér aukið álag á heilbrigðissþjónustu, löggæslu og sjúkraflutninga svo eitthvað sé nefnt. Vaktavinna getur haft sína kosti fyrir starfsmenn auk þess sem hún er nauðsynleg til þess að hægt sé að halda uppi jöfnu þjónustustigi allan sólarhringinn. Það er því ekki síður mikilvægt fyrir stjórnendur og samfélagið á Suðurnesjum að vaktavinnufólk sé heilsuhraust því þannig byggjum við upp heilsueflandi samfélag.

 

Jóhann Fr. Friðriksson, heilbrigðis- og lýðheilsufræðingur hjá Nexis heilsueflingu.