Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni um fjármál Reykjanesbæjar: Fjárhaldsstjórn tekur höggið fyrir kjörna fulltrúa

Pólitík, gæsun starfsmanna Verkís, kynlíf, barnarán fyrir norðan og fleira skemmtilegt í föstudagspistlinum þessa vikuna.

Vika er langur tími í pólitík og það á vel við hvað varðar forsetakosningabaráttuna. Ólafur Ragnar hættur og Davíð Oddsson stimplað sig inn. Skoðunarkannanir sýna að Guðni Th. Verði næsti forseti Íslands. Ég er í vandræðum með hvað ég á að kjósa, ég hef aldrei farið í kjörklefann óákveðinn en það stefnir í það núna. Guðni Th. Er ekki ennþá byrjaður að segja frá sinni hugsjón um land og þjóð, er of upptekinn við að setja út á aðra. Andri stendur þó fyrir fallega hugsjón sem er náttúra landsins og við vitum öll að við þurfum að bæta okkur í umhverfismálum. Andri er þó ekki að kveikja í mér þótt hann sé nú smá krútt þessi elska. Það er bara spurning að standa með Garðbúanum og kjósa Magga Texasborgara, hann er sannur mannvinur, þurfum bara að henda honum á enskunámskeið.

Árni Árna

Árni Árna

Vandræðalegt fyrir afann fyrir norðan sem sótti barnabarn sitt á leikskólann og fór heim með rangt barn. Í fréttinni er tekið fram að hann sé mikið í burtu – ég hvet fjölskylduna til að stofna facebooksíðu fyrir gamla og dæla inn myndum af barnabörnunum. Leiðilegt að þekkja þau ekki. Ég verð að viðurkenna að ég hefði verið til í að vera fluga á vegg þegar amman kom heim og áttaði sig á því að barnið var bláókunnugt. Sá hefur fengið að heyra það – ekki mikill áhugi fyrir barnabörnunum hjá gamla.

Seljavallalaug er farin að veita Bláa lóninu harða samkeppni hvað varðar kynlíf. Enda er verðmiðin fyrir parið í lónið með þeim hætti að það er nánast ódýrara að taka bílaleigubíl í Seljavallalaug. Í vikunni var birt mynd af pari í innilegum atlotum í lauginni. Ég fór þarna fyrir 2 árum og gat ekki hugsað mér að fara ofan í þetta grútskítuga vatn og sat á grjóti á meðan félagarnir veltu sér upp úr þessu öllu saman. Hvatirnar eru misjafnar, ég man eftir því þegar ég var í framhaldsskóla að þá var par sem ég þekkti með þá hneigð að bruna upp í flugstöð Leifs Eiríkssonar á háannatíma og skoppast á fatlaða salerninu í komusal með 500 manns við hurðina – allt á sinn stað og stund.

Ekki gekk vel hjá fulltrúum Íslands í Eurovision í undankeppninni á þriðjudag. Gréta og co náðu ekki í gegn, því miður. Keppnin sjálf er skemmtilegri þegar Ísland er með. Ég hef verið skammaður fyrir að hafa ekki trú á laginu, en lagið var langt í frá það versta í undankeppninni og átti skilið að komast áfram. Enda ekki annað hægt en að vera stoltur af frammistöðu Grétu. En riðillinn var líka erfiður, lönd sem við eigum litla samleið með. Keppnin hefur í raun verið yfirtekin af austur Evrópu, Svíþjóð er eina af norðurlöndunum sem er með þetta árið. Írland sem sem á met í sigrum ekki heldur, keppnin er orðin of stór fyrir litla Ísland, ég spái því að við eigum erfitt uppdráttar úr forkeppninni næstu árin.

Félag atvinnurekenda hafa sent borgarstjóra erindi þar sem stefna meirihlutans er að deiluskipuleggja fjölda fyrirtækja út úr borginni, ef svo má að orði komast. Til stendur að breyta rótgrónum atvinnuhverfum í íbúðabyggðir í bland við léttan fyrirtækjarekstur, gott dæmi er Vogahverfið. Borgin er ekki bara að sigla í kaf fjárhagslega heldur er að sigla borginni í kaf í hótelbyggingum. Það virðist vera eini atvinnureksturinn sem fær byr undir báða vængi. Gott dæmi um fyrirtæki sem eru að yfirgefa borgina er Wow air sem er mun færa sig um set og halda í Kópavoginn já og Íslandsbanki líka. Þrenging gatna, einsleitir atvinnumöguleikar og hátt fasteignaverð einkennir borgina sem á án efa eftir að valda því að ungt fólk velur önnur sveitarfélög til að setjast að. Dagur er alveg að blómstra í rekstri borgarinnar – meiri þörf á kosningum strax í borginni en í landsmálunum.

Þið sem hafið lesið pistlana mína búið án efa við þann grun að ég sé hneigður til Sjálfstæðisflokksins, næ ekki að fela það sérstaklega vel – en flokkurinn minn fékk góða niðurstöðu í skoðunarkönnun í vikunni og því ber að fagna. Hinsvegar er Samfylkingin eins og afhausuð rolla í dauðakippunum. Núverandi formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason er ekkert svo viss um að Samfylkingin lifi af kosningar – á sama tíma vill Magnús Orri Scham formannsframbjóðandi leggja hana niður, ganga til samninga við aðra flokka með meira fylgi og stofna nýjan jafnaðarflokk. Hversu oft á að stofna jafnaðarflokk? Alþýðuflokkur, Þjóðvaki, Samfylking, allt meira og minna sama fólkið. Magnús þarf að átta sig á að kjósendur eru ekki að hafna nafninu á flokknum, það er stefnan, forystan og alveg örugglega endurkoma Ólínu Þorvarðardóttur. Afsakið dónaskapinn en það mætti stytta biðlista á dvalarheimilum með að spila ræðurnar hennar frá Alþingi, það myndu margir geispa golunni.

Ég kynnti mér aðeins fjármálakrísu Reykjanesbæjar og hafði áhyggjur af því að ekki náðust samningar við lánadrottna. Ég hélt auðvitað að þetta væri allt í vanskilum og ætti að vera uppgreitt. Svo er ekki, það er verið að reyna að létta á greiðslubyrði með að fá skuldir afskrifaðar. Reykjanesbær hefur til ársins 2020 að ná skuldum bæjarsjóðs niður í 150% af tekjum bæjarfélagsins. Lánadrottnar eru ekki reiðubúnir að afskrifa strax, sem er frekar eðlilegt, bæjarstjórn hefur enn tíma að á tökum á þessu. Af hverju þá að vaða í samningaviðræður núna? Jú bæjarfulltrúar eru ekki að treysta sér í að skera meira niður í grunnþjónustu bæjarfélagsins. Ef skipuð verður fjárhagsstjórn tekur hún höggið fyrir kjörna fulltrúa sem hafa greinilega ekki bein í nefinu til að klára verkið. Fjárhagsstjórnin er bara skyldug til að greiða reikninga sem tilheyra lögbundinni þjónustu. Styrkir til íþróttamála, menningarmála og framvegis er ekki lögbundin, ekki einu sinni leikskólar. Staðan er því grafalvarleg og spurning hvort kjarkinn vanti í hræðslu um að ná ekki endurkjöri. Og já ég veit hverjum er um að kenna, það þarf ekki að benda mér á það.

Þeir voru gæsaðir í orðsins fyllstu starfsmenn Verkís í borginni sem lentu í því að gæs á hreiðri fyrir utan vinnustaðinn réðist á þá. Annar er handleggsbrotinn eftir árásina. Gæsir eru algeng sjón í borginni og miðað við þessa gæsun eru þær að færa sig upp á skaftið. Því miður eru þær ekki ætar þar sem borgarbúar moka brauði í skepnurnar sem gerir þær óætar. Verkís girti af svæðið svo hún fái frið enda komin með egg í hreiðrið. Þessi dýr verja með hörku eggin sín, ég man einu sinni var ég í eggjaleit á Hvalsnesi og hljóp af stað til að ná í kríuegg. Þá kom svona líka bandbrjálaður kjói með þvílíkum látum. Prinsessan ég varð svo hræddur að ég kastaði mér niður á milli þúfa og þorði ekki að hreyfa mig. Jónas bróðir kom þá hlaupandi vefandi spýtu fyrir ofan hausin á sér, reif mig upp og hljóp með mig eins heybagga undir hendinni upp á veg aftur. Þar lauk minni eggjatínslu – til hvers að tína egg þegar þau fást út í búð segi ég nú bara. Sem minnir mig á konuna sem hringdi í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og hvartaði yfir ágangi veiðimanna á rjúpuna, þetta væri bara dýraníð og væri algjörlega ónauðsynlegt þar sem það er hægt að kaupa sér rjúpu út í næstu búð.

Gleðilega hvítasunnu.