Nýjast á Local Suðurnes

Bygging Suðurnesjalínu 2 mun tefjast – Hefur áhrif á starfsemi í Helguvík

Meirihluti Hæstaréttar felldi í dag úr gildi stjórnvaldsákvarðanir iðnaðarráðherra frá 24. febrúar 2014 er heimiluðu Landsneti að taka land eignarnámi á fimm jörðum á Reykjanesi vegna byggingar Suðurnesjalínu 2.

Ákvörðun hæstaréttar mun seinka brýnum framkvæmdum við uppbyggingu flutningskerfis raforku til Suðurnesja, en tvö kísilver munu rísa í Helguvík á næstu árum, það er því nokkuð ljóst að ákvörðun hæstaréttar gæti haft áhrif á starfsemina á svæðinu.

Með ákvörðun sinni í dag sneri Hæstiréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2015. Í héraðsdómi voru Landsnet og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sýknuð af öllum kröfum eigenda jarðanna fimm vegna byggingar Suðurnesjalínu 2.

Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar kemur á óvart, þar sem ekki var deilt um nauðsyn þess að styrkja flutningskerfi raforku til Suðurnesja. Landeigendur töldu hins vegar að Landsnet hefði ekki með nægilega rökstuddum hætti sýnt fram á að val á byggingu háspennulínu á 220 kílóvolta (kV) spennu, umfram lagningu jarðstrengs, bryti ekki gegn sjónarmiðum um meðalhóf við eignarnámsákvarðanir. Segir í tilkynningu frá Landsneti vegna málsins.

Hefur það valdið vandkvæðum á svæðinu sem og í öðrum hlutum flutningskerfisins þegar línan hefur farið úr rekstri vegna viðhalds eða truflana. Algjört straumleysi varð t.d. í rúmar tvær klukkustundir þann 6. febrúar 2015. Af öryggisástæðum er því aðkallandi fyrir samfélag og atvinnustarfsemi á Reykjanesskaga að flutningskerfi raforku verði styrkt.