Nýjast á Local Suðurnes

Bogi og björgunarsveitin Grindvíkingur ársins

Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar hefur verið valinn Grindvíkingur ársins ásamt Björgunarsveitinni Þorbirni. Fjölmargar tilnefningar bárust en þær voru nánast allar á einn veg, tileinkaðar Boga, björgunarsveitinni eða báðum. Bogi stóð vaktina ásamt öðru björgunarsveitarfólki þegar fór að gjósa í Fagradalsfjalli í mars á síðasta ári en hann ásamt sveit sinni stóð oft í ströngu við erfiðar og krefjandi aðstæður í bland við langar vaktir.  

Nokkrar umsagnir sem bárust um Boga og Slysavarnardeildina Þorbjörn voru birtar á vef sveitarfélagsins:

  • Bogi stóð sig ótrúlega vel í erfiðum aðstæðum frá því í mars og fram á haust ásamt björgunarsveitinni allri, á mikið hrós skilið
  • Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar fyrir mikið og gott starf í þágu Grindavíkur þegar eldgos og jarðskjálftar og svo eldgos sprakk upp í bakgarði okkar í Grindavík. Björgunarsveitin stóð vaktina með miklu prýði í eldgosinu.
  • Björgunarsveitin stóð sig vel og var til fyrirmyndar í jarðskjálftahrinunni í feb/mars (róuðu fólk m.a. niður með facebook stöðufærslum og héldu bæjarbúum upplýstum). Þeir unnu mjög óeigingjarnt starf þegar fór að gjósa og hjálpuðu tugi (hundruði?) manns og gerðu allt til að fólk væri öruggt á gossvæðinu. Björgunarsveitamenn/konur eiga stórt hrós og þakkir skilið frá bæjarbúum, landsmönnum og erlendum ferðamönnum. 
  • Grindvíkingur/ar ársins eru að mínu mati Björgunarsveitin Þorbjörn fyrir frábært og óeigingjarnt björgunar -og sjálfboðaliðastarf við gosstöðvarnar og Slysavarnadeildin Þórkatla fyrir að vera ávallt til staðar fyrir björgunarsveitarina og hafa staðið vaktina í slysavarnarhúsinu og næra alla sjálfboðaliða og löggæslufólk sem þangað kom meðan það var við gæslu á gosstöðvunum.
  • Bogi Adolfsson, nema hvað!

Tilgangurinn með nafnbótinni Grindvíkingur ársins er að þakka íbúum í Grindavík fyrir þeirra framlag til þess að gera góðan bæ betri, m.a. með fyrirmyndar háttsemi eða atferli. Til greina koma þeir sem unnið hafa óeigingjarnt starf á undanförnum árum og haft jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt. 

Hefð hefur verið fyrir því að afhenda verðlaunin formlega á Þrettándagleðinni. Þar sem gleðin verður öðruvísi í ár munum við afhenda Boga og Slysavarnardeildinni Þorbirni verðlaunin við gott tækifæri, taka viðtal og birta hér á vefsíðu bæjarins. 

Við óskum Boga og Slysavarnardeildinni Þorbirni innilega til hamingju með verðuga nafnbót og óskum sveitinni velfarnaðar í sínum óeigingjörnu störfum. 

Mynd: Grindavik.is / Fannar Jónasson færir Borga Adolfssyni blómvönd í tilefni af 90 ára afmæli Slysavarnardeildarinnar Þorbjarnar 2. nóvember 2020