Nýjast á Local Suðurnes

Ekið á 10 ára barn á rafmagnshlaupahjóli – Lögregla með mikilvæg skilaboð!

Lögregla beinir þeim tilmælum til foreldra að kenna börnum sem nota rafmagnshlaupahjól á hjólin og umferðarreglur. Þetta kemur fram í pistli sem lögreglan á Suðurnesjum birti á Fésbókarsíðu sinni.

Í pistlinum, sem finna má hér fyrir neðan, kemur einnig fram að ekið hafi verið á 10 ára barn sem var á slíku hjóli, en betur fór en á horfðist í því tilviki.

Það hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum að notkun rafmagnshlaupahjóla hefur aukist mikið að undanförnu.
Notendur vélknúinna hlaupahjóla (rafmagnshlaupahjóla) þurfa þó að fylgja vissum reglum.

En þessi hjól tilheyra flokki reiðhjóla og eru ætluð til aksturs frá 6 km/klst og upp í 25 km/klst.

Þessum hjólum má ekki aka á akbraut samkvæmt umferðarlögum og þarf að fara eftir sömu reglum og varðar reiðhjólin varðandi öryggisbúnað. Samkvæmt umferðarlögum þá er ekkert aldurstakmark er viðkemur notkun þessara hjóla. Þó má benda á að barn undir 9 ára má ekki hjóla á akbraut nema undir eftirliti og leiðsögn einhvers sem hefur náð 15 ára aldri. Reiðhjól eru lögum samkvæmt skilgreind sem ökutæki og því gilda í raun sömu reglur um þessi tæki og akstur bifreiða nema reiðhjólið og rafmagnshlaupahjólið má vera á gangstétt og göngustígum. Sá sem er á reiðhjóli eða rafmagnshlaupahjóli skal ávallt víkja fyrir gangandi vegfarendum.

Sem foreldri þá hefur sá sem þetta ritað séð börn á þessum rafmagnshlaupahjólum sem varla ná upp fyrir stýrið bruna yfir götur án þess að líta hvorki til hægri né vinstri. Það að kaupa svona hjól er eitt en það að vera barnungur einstaklingur og fara út í umferðina á þessu er varhugavert. Umferðin er risastór og hættulegur heimur sé ekki farið varlega. Krakkar sem eru á þessum rafmagnshlaupahjólum bruna oft eftir gangstéttum og framhjá innkeyrslum þar sem bifreiðum er ekið út af, að sjálfsögðu má einnig heimfæra þetta yfir á reiðhjólin en rafmagnshjólin fara þó hraðar yfir. Við þurfum að kenna börnunum okkar á umferðina og leiðbeina þeim, það er ekki nóg að kaupa hjól og hjálm og segja svo bara „farðu varlega“

Það er að svo mörgu að huga, eins og áður sagði þá þarf að huga sérstaklega til dæmis að innkeyrslum við íbúðarhús þar sem bifreiðum er bakkað úr stæðum en þarna þurfa allir að sýna sérstaka aðgát. Á meðan ég ritaði þessa punkta niður var mér litið út um gluggann og sá ég þá ungan dreng, um það bil 8 ára bruna framhjá lögreglustöðinni á rafmagnshlaupahjólinu sínu en það sem verra var að hann var í miðju myndsímtali við einhvern. Ökumenn bifreiða verða líka að gera ráð fyrir því að börn eru farin að nota þessi tæki mun meira en áður þekktist og má fastlega gera ráð fyrir því að aukning á þessum tækjum muni bara aukast í sumar.

Í morgun var ekið á 10 ára gamlan dreng sem slapp sem betur fer við mikil meiðsli en hann var þó fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en var útskrifaður þaðan skömmu síðar. Það er með þetta eins og svo margt annað, við verðum öll að leggjast á eitt með það að gera það sem við getum til að koma í veg fyrir slysin og í sameiningu þá hjálpumst við að með það.

Hér fyrir neðan eru áhugaverðir hlekkir á ýmsan fróðleik er snýr að rafmagnshlaupahjólum og umferðinni.

https://www.samgongustofa.is/rafmagnshlaupahjol/

https://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/reidhjol/