Nýjast á Local Suðurnes

Páll Jóhann með bestu mætingu á nefndarfundi – Silja Dögg þá slökustu

"Hefur ekkert með skróp að gera," segir Silja Dögg Gunnarsdóttir

Núverandi þingmenn Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi.

Páll Jóhann Pálsson þingmaður Suðurkjördæmis var sá þingmaður kjördæmisins sem mætti á flesta nefndarfundi á vegum Alþingis síðasta vetur, hann mætti á 146 fundi. Ásmundur Friðriksson kom næstur af þingmönnum kjördæmisins en Silja Dögg Gunnarsdóttir var með slökustu mætinguna. Þetta má lesa úr gögnum sem vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins, Píratar birtu fyrir skömmu.

Páll Jóhann mætti sem áður segir á 146 fundi í vetur og Ásmundur á 136, Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki mætti á 116 fundi, Oddný Harðardóttir sem situr á þingi fyrir Samfylkinguna mætti á 75 fundi og það er svo Silja Dögg Gunnarsdóttir Framsóknarflokki sem mætti á fæsta fundi af Suðurnesjamönnum á þingi eða 45.

“Mér sýnist svona fljótt á litið að þetta sé fjöldi funda, ekki hversu vel fólk mætir á boðaða fundi. Gæti trúað að súlurnar litu allt öðruvísi út ef það væri mælikvarðinn. Forsætisnefndin fundar til dæmis bara einu sinni í viku, þannig að fundir þar eru færri en almennt î öðrum nefndum. Þetta hefur ekkert með skróp að gera. Ég mæti á þá fundi sem ég er boðuð á,” sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir í samtali við Local Suðurnes

Og hún bætti við: “Það væri jafnframt áhugavert að sjá tölur um hversu vel fólk mætir á fundi sem það er boðað á. Þær tölur gæfu réttari mynd af því hversu vel fólk sinnir skyldum sínum.”

Það geta verið ýmsar skýringar á misjöfnum mætingum þingmanna á fundi á vegum Alþingis, meðal annars geta þingmenn verið í mismörgum nefndum og nefndarfundir geta verið á sama tíma. Einnig má taka fram að forsetar þingsins stýra þinginu og skipta með sér vöktum í fundarstjórn, þess vegna geta þeir jafnframt verið á mörgum nefndarfundum.