Nýjast á Local Suðurnes

Áfram lok, lok og læs í Vogum

Aðgerðarstjórn Sveitarfélagsins Voga hélt fund síðdegis mánudaginn 19. október og var gestur fundarins Ingþór Guðmundsson forseti bæjarstjórnar. 

Á fundinum voru ræddar nýjar reglur heilbrigðisráðherra um sóttvarnarráðstafanir sem taka gildi þriðjudaginn 20. október. Aðgerðarstjórn tók þá ákvörðun að gera ekki breytingar á ákvörðunum sveitarfélagsins hvað varðar aðgengi að stofnunum þess og verða því sömu reglur í gildi í eina viku hið minnsta. Þannig verður skrifstofa Sveitarfélagsins Voga verður lokuð fyrir heimsóknir en starfsfólk mun þó áfram sinna sínum störfum og hægt verður að panta viðtalstíma við þá. Sundlaug og íþróttamiðstöð verða áfram lokuð fyrir almenning, meðal annars vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðis, en undanþágur verða vegna íþróttastarfs barna og skólastarfs.

Það er markmið aðgerðarstjórnar að vernda sérstaklega skólastarfið en einnig starfsfólk sveitarfélagsins og íbúa þess. Nú eru fjórir einstaklingar með staðfest smit í sveitarfélaginu og eru þeir allir í einangrun og fjórir að auki í sóttkví. Þessar tölur viljum við ekki sjá hækka og óskum þess að allir íbúar fari áfram varlega og gæti ítrustu sóttvarna, segir í tilkynningu á vef sveitarfélagsins. 

Ennfremur hvetur aðgerðastjórn alla til að sinna bæði líkamlegu og andlegu heilbrigði sem best. Göngu- og hjólaferðir ásamt almennri heima-líkamsrækt geta flestir stundað og verum einnig dugleg að heyra í fjölskyldu og vinum með aðstoð tækninnar. Sérstaklega eru íbúar beðnir að huga að þeim sem búa einir og hafa hugsanlega einangrast í þessu ástandi, eitt símtal gerir til að mynda oft mikið.