Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær færir eignir í húsnæðissjálfseignarfélag – Stefnt á að bæta við íbúðum í haust

Innri - Njarðvík

Reykjanesbær stefnir á að færa eignir úr Fasteignum Reykjanesbæjar ehf. yfir í sjálfseignarstofnun sem verður að fullu í eigu Reykjanesbæjar, síðar á árinu. Þetta er í samræmi við heimildir í nýjum húsnæðislögum og hefur fyrirtækið Almennar íbúðir hses. þegar verið stofnað. Þegar af færslu eignana verður munu rekstur, skuldir og eignir hins nýja félags færast út úr reikningum og samstæðu Reykjanesbæjar og um leið úr ábyrgð sveitarfélagsins, þar með taldar íbúðir í félagslega kerfinu.

Þá stendur til að bæta við íbúðum í félagslega kerfinu, en sveitarfélagið mun eiga möguleika á að bæta við að minnsta kosti tveimur íbúðum með mjög skömmum fyrirvara, og verður það að öllum líkindum gert í haust, samkvæmt heimildum Suðurnes.net. Þá herma heimildir að ekki standi til að stækka eignasafnið í félagslegum íbúðum meira, að svo stöddu, en Reykjanesbær rekur eitt stærsta félagslega íbúðakerfi landsins.