Nýjast á Local Suðurnes

Fjölbreytt dagskrá á Safnahelgi á Suðurnesjum

Safnahelgi á Suðurnesjum verður haldið í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum dagana 11. – 12. mars nk. Er þetta í níunda sinn sem sveitarfélögin taka höndum saman í framkvæmd safnahelgi. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og ókeypis er inn á þátttökusöfnin á safnahelgi. Hægt er að kynna sér dagskrána á vefnum safnahelgi.is.

Dagskráin er afar fjölbreytt; alls kyns sýningar, tónleikar, fyrirlestrar og margs konar uppákomur. Söfn, safnvísar og sýningar nálgast á annan tuginn og fjölbreytni safnanna er í raun einstök á ekki stærra svæði. Fólk getur kynnst sögunni frá því fyrir landnám og til okkar tíma, margvíslegum atvinnuháttum, listum og náttúru. Sjósókn og vinnsla sjávaraflans er t.d. kynnt á þremur söfnum í þremur mismunandi bæjarfélögum, Kvikunni í Grindavík, Byggðasafninu í Garði og Bátasafninu í Duus Safnahúsum.

Náttúran er áberandi í Þekkingarsetri Suðurnesja og í Gestastofu Reykjaness jarðvangsins í Duus Safnahúsum en í Duus Safnahúsum eru annars 8 sýningarsalir með fjölbreyttum sýningum um sögu, listir og náttúru. Óhætt er líka að nefna Slökkviliðsminjasafn Íslands í Safnamiðstöðinni í Ramma og sýningu Björgvins Halldórssonar Rokksafninu í Hljómahöllinni. Söguganga um Bítlabæinn Keflavík verður farin á vegum Bókasafns Reykjanesbæjar og Pokemon sýning verður á Bókasafni Sandgerðis. Tvö einkasöfn verða opin almenningi í Garðinum af þessu tilefni og tvær ljósmyndasýningar í Vogunum. Menningarvika Grindavíkur hefst þessa sömu helgi og þar verður fjöldi viðburða og sýninga í gangi um allan bæ. Þar má m.a. nefna Guðbergsstofu og Jarðorkusýninguna í Kvikunni og listsýningar á Bókasafninu, Salthúsinu o.fl. stöðum.