Nýjast á Local Suðurnes

Fjögur verkefni af Suðurnesjum styrkt af Isavia

Mynd: Isavia

Fjögur verkefni af Suðurnesjum fengu úthlutað styrkjum úr samfélagssjóði Isavia, en alls hlutu þrettán verkefni styrk að þessu sinni. Veitt er úr sjóðnum tvisvar sinnum á ári og við val á styrkþegum er áhersla lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál og barst sjóðnum fjöldinn allur af umsóknum. Voru styrkirnir afhendir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á dögunum.

„Okkur hjá Isavia finnst afar mikilvægt að láta gott af okkur leiða og eru úthlutanir úr samfélagssjóði okkar stór þáttur í því. Það er einnig ánægjulegt að geta styrkt hin ýmsu verkefni á Suðurnesjunum í nánd við Keflavíkurflugvöll” Sagði Björn Ingi Hauksson, forstjóri Isavia.

Í gegnum samfélagssjóð leggur Isavia sitt af mörkum til þess að metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins fái að dafna, segir í tilkynningu.

Verkefnin sem fengu styrk eru:

Vinnuskóli Reykjanesbæjar og FS fengu styrk til að kynna verknám fyrir 9. bekk í gegnum vinnuskólann.

Steinbogi kvikmyndagerð fékk styrk við gerð heimildarmyndarinnar „Guðni á trukknum“ sem fjallar um Guðna Ingimundarson, heiðursborgara Garðs.

Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF) fékk styrk fyrir samstarfsverkefni við 18 grunn- og framhaldsskóla um uppgræðslu í Landnámi Ingólfs.

Stuðningsfélagið Kraftur fékk styrk vegna átaksins „Lífið er núna“ sem aðstoðar krabbameinssjúka á aldrinum 18-40 ára.

ABCD fékk styrk til að þýða og staðfæra alþjóðlegt námsefni í fjármálalæsi fyrir 6-14 ára.

Plastlaus september fékk styrk við árveknis átak sitt sem er ætlað að vekja almenning til umhugsunar um plastnotkun.

Ungir umhverfissinnar fengu styrk við kynningar í menntaskólum um umhverfismál.

Ylhýra hlaut styrk við gerð á tölvu- og smáforriti í snjallsíma fyrir íslenskukennslu.

Söngvaskáld á Suðurnesjum fengu styrk við framkvæmd á tónleikaröð sinni.

Vinaliðar fengu styrk til verkefnis þar sem nemendur gerast vinaliðar og taka þátt í verkefnum sem snúa að einelti.

Borgarhólsskóli fékk styrk við kaup á tækni-lego fyrir börn og unglinga.

Töfrahurðin, íslensk tónlistarútgáfa fékk styrk við gerð jazzútgáfu af sögu Péturs og úlfsins og munu bjóða 600 grunnskólabörnum á prufu í Hörpu í nóvember 2017.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum fékk styrk fyrir sérverkefni sem ætlað er að styrkja samstöðu og uppbyggingu.