Nýjast á Local Suðurnes

Nemendur virða ekki reglur varðandi notkun á spjaldtölvum

Töluvert mun vera um að nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar virði ekki reglur varðandi notkun á spjaldtölvum og öðrum snjalltækjum, sem notuð eru við kennslu, bæði í kennslustofum og á göngum.  Allir nemendur í 8.-10. bekk í  grunnskólum sveitarfélagsins eru komnir með spjaldtölvur við nám.

Meðal þess sem nemendur virðast stunda er að nýta sér tækin á óæskilegan hátt í kennslustundum, meðal annars til að taka myndir af samnemendum og kennurum í kennslu og senda sín á milli. Þá eru dæmi þess að nemendur neiti kennurum um að sjá það sem er inn á spjaldtölvunni, en reglur um notkun spaldtölva við nám eru mjög skýrar hjá grunnskólunum – það á ekkert að vera inn á tækinu sem ekki þolir skoðunar við.

Heimildir Suðurnes.net herma að skólastjórnendur hafi brugðist við vandamálinu með því að setja stífari reglur varðandi þau smáforrit sem eru leyfileg til uppsetningar í spjaldtölvum skólanna, smáforrit á borð við Snapchat, Instagram, Messenger og Facebook eru ekki leyfileg. Þá hefur nemendum í einhverjum tilvikum verið bent á að ítrekuð brot á þessum reglum geti valdið tímabundinni brottvikningu úr skóla.

Fram kom í á fundi Fræðsluráðs Reykjanesbæjar fyrr á árinu að ráðið telji að skoða þurfi hvernig spjaldtölvurnar hafi áhrif á árangur í námi að mati foreldra og nemenda, auk þess sem huga þurfi að þróun tölvumála við endunýjum tölvubúnaðar.