Nýjast á Local Suðurnes

Telur að byggingafulltrúi hafi farið út fyrir valdheimildir – Verkferlar endurskoðaðir og fundir tíðari

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Reykjanesbær hefur endurskoðað verkferla sína eftir að í ljós kom að fyrrverandi byggingafulltrúi Reykjanesbæjar gaf United Silicon leyfi fyrir of háum byggingum við verksmiðju fyrirtækisins í Helguvík.

Tvær byggingar fyrirtækisins eru hærri en deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir, loftsíunarhús sem er rúmir 30 metrar og pökkunarstöð rúmir 38 metrar, eða 13 metrum hærri en leyfilegt er.

Byggingarnar verða þó ekki lækkaðar, segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar við Rúv, og bætir við að hann telji málið vera án fordæma og að byggingafulltrúinn hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með því að gefa leyfi fyrir byggingunum. Ekki sé hægt að krefja fyrirtækið um að lækka byggingar þegar teikningar hafi verið stimplaðar af byggingafulltrúa bæjarfélagsins.

Guðlaugur Helgi segir annað verklag í gangi núna, meira samráð sé og fundir tíðari. Byggingafulltrúinn sagði starfi sínu lausu í kjölfarið og hefur annar verið ráðinn tímabundið í hans stað.