Nýjast á Local Suðurnes

Nýr flokkur vill endurgjaldslausar skólamáltíðir

Nýr stjórnmálaflokkur í Reykjanesbæ, Umbót, vill að skólamáltíðir verði endurgjaldslausar fyrir grunnskólabörn í sveitarfélaginu.

Flokkurinn býður fram í fyrsta sinn í kosningunum sem fram fara í maímánuði og virðast fjölskyldumál flokksmönnum hugleikin, ef marka má stefnuskránna sem birt er á vef flokksins, Umbót.is. Þannig stefnir flokkurinn á, komist hann til valda, að Reykjanesbær sýni metnað í úrræðum eins og félagsfærninámskeiðum og vináttuþjálfun fyrir börn og ungmenni og fólk af erlendu bergi brotið.

Þá segir í stefnuskrá að vilji sé til þess Reykjanesbær hugi betur að lögbundinni þjónustu við börn og fjölskyldur og að fjármagn verði tryggt fyrir liðveislu og önnur sambærileg stuðningsúrræði velferðarþjónustu.

Auk þessa er stefnt á að í sveitarfélaginu verði hugað betur að líðan grunnskólanemenda með því að auka fagþekkingu innan skólanna meðal annars með skólafélagsráðgjöf, segir í stefnuskrá.