Nýjast á Local Suðurnes

Heimavellir í sókn á Suðurnesjum – Keyptu allar eignir Tjarnarverks

Eitt stærsta leigufélag landsins, Heimavellir hefur keypt allar eignir leigufélagsins Tjarnarverks á Suðurnesjum, en síðarnefnda fyrirtækið var talsvert í fréttum á síðasta ári eftir að hafa hækkað leigu til viðskiptavina sinna um tugi þúsunda króna á mánuði án fyrirvara og fengu Neytendasamtökin meðal annars fjölda fyrirspurna vegna starfshátta fyrirtækisins.

Heimavellir er eitt af stærstu leigufélögum landsins, með tæplega 1.000 íbúðir í umsýslu, en það hefur keypt íbúðir af Íbúðalánasjóði í hundraða tali frá því það var stofnað í janúar árið 2014. Vefmiðillin Stundin fjallaði um fyrirtækið í sumar og í umfjöllun miðilsins kemur fram að stærstu eigendur Heimavalla séu Stálskip ehf. með 14,30 prósenta hlut, Sjóvá Almennar tryggingar hf. með 9,10% hlut, Túnfljót ehf. með 8,60% hlut, Brimgarðar ehf. með 6,90% hlut, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda með 5,40% hlut og óþekktir hluthafar halda utan um 55,70% hlut í fyrirtækinu.

Það er eftir töluverðu að slægjast fyrir Heimavelli á Suðurnesjum, en leiguverð á svæðinu hefur hækkað um tæp 60% á undanförnum fimm árum.