Kynna Suðurnesjamódelið á fundi Sameinuðu þjóðanna

Fulltrúar frá Velferðarráðuneytinu og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu munu kynna verkefnið „Að halda glugganum opnum“ eða Suðurnesjamódelið svokallaða á 60. fundi Kvennanefnar Sameinuðu þjóðanna sem hófst í dag.
Verkefnið verður kynnt Þann 17. mars á kvennanefndarfundinum og ber yfirskriftina „Keep the Window Open“. Hér á landi hefur verkefnið verið kallað Suðurnesjamódelið en það miðar að því að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi og koma fleiri málum í gegnum réttarvörslukerfið.
Verkefnið þykir hafa gefið góða raun og fjöldi sveitarfélaga á Íslandi vinnur eftir módelinu auk þess sem verkefnið hefur verið kynnt á ráðstefnumá Spáni og í Finnlandi. Embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum hefur einnig fengið heimsóknir hópa frá Noregi og Póllandi, sem hafa kynnt sér verkefnið. Þá hafa félags- og dómsmálayfirvöld í Vestur-Gautlandi í Svíþjóð unnið að undirbúningi þróunarverkefnis sem byggir á Suðurnesjamódelinu og miðar að bættu verklagi og samvinnu í heimilisofbeldismálum.
Þær Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Alda Hrönn Jóhannesdóttir, yfirlögfræðingur hjá embættinu og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, fulltrúi Stígamóta munu kynna verkefnið á kvennanefndarfundinum.




















