Engar athugasemdir og “Stapinn” mun rísa – Sjáðu myndirnar!

Fyrirhuguð breyting á byggingum við Hrannargötu 6 voru samþykktar á fundi umhverfi- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar á dögunum, með þeim fyrirvara þó að bílastæðamál verði skoðuð nánar.
Breytinganar ná til lóðarinnar Hrannargötu 6 og næsta nágrennis hennar. Fyrirhugaðar breytingar svipa mjög til Stapans, samkomuhúss Njarðvíkinga á árunum áður sem staðsett var hvar Hljómahöll stendur nú.
Breytingin felur í sér að sá hluti hússins sem hýsir veisluþjónustu Soho hækkar um tvær hæðir.
Gert er ráð fyrir að skipulagsreitur fyrir svæðið nái út fyrir vita (í austri) og út fyrir grjóthleðslu við strandstíg (í vestri) til að unnt sé að skipuleggja bílastæði sem hægt væri að samnýta með annarri starfsemi í húsinu og jafnvel með fyrirtækjum í nærliggjandi byggingum. Skipulagsmörk í norðri yrðu strandlínan, svæði sem yrði óbreytt og áfram skilgreint sem útivistarsvæði. Áætlað er að hægt sé að koma fyrir 70 bílastæðum auk sleppistæða fyrir rútur á þessum reit.
Grenndarkynningu lauk 14. október, engar athugasemdir bárust.
Myndir: rnb.is / úr greinargerð sem fylgdi tillögum.




