easyJet flýgur hingað til lands á ný
Breska flugfélagið easyJet hefur ákveðið að hefja á ný flug til og frá Íslandi. Það bætist þar með í hóp með öðrum flugfélögum sem hafa þegar hafið flug til og frá Íslandi eða hafa tilkynnt um að flug muni hefjast í júlí.
Icelandair hefur flogið til Boston, London og Stokkhólms síðustu vikur en fjölgaði áfangastöðum þegar heilbrigðisyfirvöld hófu skimun fyrir Covid 19 á Keflavíkurflugvelli þann 15. júní síðastliðinn. Síðan þá hafa Air Greenland, Atlantic Airways, Czech Airlines, SAS, Transavia og Wizz air hafði flug til samtals 14 áfangastaða.
Í júlí bætir Wizz air við flugi til Mílanó, Norwegian og SAS hefja flug til Osló og Transavia til Nantes í Frakklandi. Þá mun Lufthansa hefja flug til Frankfurt tvisvar í viku og München einu sinni í viku. Air Baltic flýgur þrisvar í viku til Riga í Lettlandi og Austrian einu sinni í viku til Vínarborgar.
Nú síðast tilkynnti easyJet ákvörðun sína að hefja flug til London Luton þann 1. júlí næstkomandi. Fyrst um sinn verður flogið þangað fimm sinnum í viku en síðar er áformað að auka tíðni í sex ferðir í viku. Félagið hefur á síðustu árum haldið uppi reglubundnu flugi um Keflavíkurflugvöll til fjölda áfangastaða á Bretlandseyjum og í Sviss.