Nýjast á Local Suðurnes

Fólk gangi ekki að gosstöðvunum

Lögreglan á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu þar sem það er ítrekað að fólk leggi ekki í göngu að gosstöðvunum. Samkvæmt tilkynningunni eru um 9-10 kílómetrar að svæðinu og því væri um 20 kílómetra göngu að ræða, yfir afar erfitt svæði.

Tilkynning lögreglu í heild:

Smá upplýsingar um staðsetningu gossins sem verður vonandi til þess að fólk hugsi sig 4 sinnum um áður en það leggur af stað. Það eru um 9-10 km frá Reykjanesbraut að gosstöðvunum og þar af leiðandi 9-10 km líka til baka, sem gerir 18-20 km í heildina.

Fyrstu 500 metrarnir eru á sæmilegum stíg en svo tekur við gróft úfið hraun sem er afar erfitt yfirferðar. Gera má ráð fyrir því að það taki vanan göngumann um 4-5 klukkustundir að ganga þessa leið sem er alls ekki fyrir hvern sem er. Í augnablikinu er ekki nema 2 stiga hiti og blautt og svo fer að frysta eftir morgundaginn sem gerir gönguna gríðarlega krefjandi.

Við höfum því miður þurft að kalla út þyrlu í kvöld til að sækja göngumann sem varð úrvinda, kaldur og skelkaður á miðri leið að gosinu. Endilega íhugið þetta áður en þið farið af stað, það eru að koma jól og við viljum að viðbragðsaðilar eins og björgunarsveitarfólk geti verið heima hjá sér yfir hátíðarnar. Auk þess þá er talsverð gasmengun og óvissa á svæðinu eins og er.
Eigið gott kvöld og farið varlega.