Nýjast á Local Suðurnes

Frumleg fjáröflun Njarðvíkinga – Selja veiðileyfi “með öllu” í Laxá í Aðaldal

Njarðvíkingar fara óhefðbundnar leiðir við fjáröflun

Það er ekki auðveldasta starf í heimi að fjármagna körfuboltalið í fremstu röð og því er um að gera að nota allar leiðir til að næla í aurinn sem til þarf. Njarðvíkingar hafa undanfarin ár státað af nær skuldlausri körfuknattleiksdeild, þrátt fyrir að hafa fengið til liðs við sig nokkra af bestu körfuknattleiksmönnum landsins, og jafnvel haldið þeim á samning og hlúð að þeim heilu keppnistímabilin þrátt fyrir meiðsli.

Njarðvíkingar greina frá því á Fésbókarsíðu sinni í dag að góður vinur körfuknattleiksdeildarinnar hafi ákveðið að gefa deildinni veiðileyfi í Laxá Aðaldal – Laxamýrarsvæði og þannig styrkja veglega við starfið.

Um er að ræða 4ja daga laxveiði í byrjun ágúst í einni skemmtilegustu laxveiðiá landsins, með fullu fæði og gistingu fyrir einn. Veiðihótelið er vægast sagt stórkostlegt og maturinn frábær. Engu að síður geta tveir verið um leyfið en þá þarf að borga aukalega fyrir fæði fyrir viðkomandi. Áhugasamir veiðimenn geta nýtt sér þennan möguleika og um leið styrkt starf körfuboltans verulega. Áhugsamir eru beðnir um að hafa samband við Gunnar Örlygsson í síma 864-2200 eða senda tölvupóst á gunnar@icemar.is – Segir í færslu Kkd. Njarðvíkur.

Að sögn kunnugra eru veiðileyfi með öllu inniföldu í Laxá í Aðaldal af dýrari gerðinni og ætti þessi gjöf því að styrkja vel við starfsemi körfuknattleiksdeildarinnar fyrir átök næsta tímabils.