Nýjast á Local Suðurnes

Bandarískir háskólaþjálfarar fylgjast með ungum knattspyrnumönnum í Reykjaneshöll

Um 20 háskólaþjálfarar frá Bandaríkjunum munu vera staddir hér á landi um þessar mundir, en um næstu helgi stendur Soccer and Education USA fyrir sérstökum „Showcase” leikjum fyrir unga knattspyrnumenn. Um er að ræða sýningarleiki þar sem þjálfararnir leita að leikmönnum.

Leikirnir munu fara fram í Reykjaneshöll og líklega munu um 30 ungir knattspyrnumenn taka þátt í þessum leikjum, að sögn Brynjars Benediktssonar, sem rekur Soccer and Education USA ásamt Jónu Kristínu Hauksdóttur.

„Það verða sennilega þrjú lið frá okkur og liðin eru að fara að spila innbyrðis. Þetta er þekkt fyrirbæri í Evrópu en nýtt á Íslandi. Það er gríðarlegt tækifæri fyrir þessa stráka að fá að sýna sig fyrir þessum skólum,” segir Brynjar í samtali við Fótbolta.net.