Nýjast á Local Suðurnes

Björgunarsveitir sóttu örmagna göngumann að Keili

Björgunarsveitir voru kallaðar út um hádegisbil í gær vegna örmagna göngumanns í nágrenni Keilis.

Ágætlega gekk að staðsetja manninn en hann var orðinn nokkuð kaldur og hrakinn og gat ekki gengið þegar hann fannst. Var því búið um hann í sérstökum sjúkrabörum með dekki undir og honum komið með þeim hætti um 2 km leið að björgunarsveitarbíl sem svo ók honum til byggða.

Í svona krefjandi verkefnum skiptir samstarf björgunarsveita öllu máli enda unnu allir sem einn í dag, segir í tilkynningu frá björgunarsveitinni Þorbirni.

Meðfylgjandi mynd var tekin í útkallinu en það tók rúmar fimm klukkustundir að leysa það.