Nýjast á Local Suðurnes

Ótrúlegur lokakafli tryggði Njarðvík fyrsta sigurinn

Njarðvíkingar lögðu Tindastól að velli í annari deildinni í knattspyrnu í dag, leikið var á Sauðárkróki. Njarðvíkingar skutust með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar. Liðið er enn taplaust, hefur gert tvö jafntefli og unnið einn leik.

Andri Fannar Freysson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Njarðvíkinga á 9. mínútu, 0-1, og þannig var staðan í hálfleik.

Tindastóll náði að jafna leikinn á 50. mínútu og allt stefndi í þriðja jafntefli Njarðvíkinga í jafnmörgum leikjum, þegar skammt var til leiksloka. Þegar tvær mínútur lifðu leiks kom Theodór Guðni Halldórsson knettinum í netið fyrir Njarðvíkinga. Andri Fannar bætti svo öðru marki sínu við og þar með þriðja marki Njarðvíkinga í uppbótartíma.