Enn bætist í hópinn hjá Keflavík

Keflvíkingar hafa samið við Paul Bignot, 29 ára enskan varnarmann, hann semur við Keflavík til loka tímabilsins. Bignot er uppalinn hjá Crewe en hefur einnig leikið með Kidderminster, Newport, Plymouth og Grimsby. Hann samdi við Blackpool árið 2011 er liðið var nýfallið úr ensku úrvalsdeildinni en náði ekki að spila leik með liðinu.
Keflvíkingar hafa því samið við fjóra leikmenn í félagsskiptaglugganum sem enn er opinn og útilokar Þorsteinn Magnússon formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur ekki að samið verði við fleirri leikmenn í samtali við Vísi.is sem greindi fyrst frá komu Bignot.
Athygli hefur vakið að Keflavík sem er neðst í Pepsí-deildinn í knattspyrnu og þarf nauðsynlega á öllum stigum að halda sem í boði eru hefur nú samið við þrjá leikmenn sem annaðhvort eru nýstignir upp úr meiðslum eða hafa ekki leikið deildarleiki í marga mánuði, en liðið hefur nýlega samið við þá Farid Zato og Chukwudi “Chuck” Chijindu sem báðir hafa verið meiddir auk þess sem þeir fengu Martin Hummervoll á láni frá Viking í Noregi en hann hefur einungis leikið 72 mínútur með Viking á þessu tímabili.